Fótbolti

Börsungar skoruðu fjögur gegn Zaragoza

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Villa fagnar marki sínu í kvöld.
David Villa fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Barcelona gaf ekkert eftir í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar með 4-0 sigri á Real Zaragoza í kvöld. Liðið er þar með jafnt Real Madrid að stigum en Madrídingar eiga leik til góða.

Gerard Pique kom Börsungum yfir á átjándu mínútu með öflugum skalla eftir fyrirgjöf Xavi úr aukaspyrnu. Lionel Messi var svo næstur á ferðinni með afar snoturt mark sem hann skoraði eftir stungusendingu Cesc Fabregas.

Staðan í hálfleik var 2-0 en eftir aðeins átta mínútna leik í seinni hálfleik kom mark númer þrjú. Carles Puyol var á réttum stað og skoraði af miklu harðfylgi eftir að Seydou Keita skallaði niður háan bolta í teig Zaragoza.

Fjórða og síðasta markið kom þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Gestirnir misstu boltann á eigin vallarhelmingi, Isaac Cuenca náði sendingunni fyrir markið þar sem David Villa var mættur og skoraði af miklu öryggi.

Real Madrid mætir Valencia klukkan 21.00 og má fylgjast með gangi mála hér á Vísi. Með sigri endurheimtir liðið þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar en Valencia er í þriðja sæti deildarinnar og getur með sigri blandað sér af alvöru í toppbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×