Fótbolti

Leik frestað í Þýskalandi vegna sjálfsvígstilraunar dómara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Babak Rafati í leik í þýsku úrvalsdeildinni í byrjun ársins.
Babak Rafati í leik í þýsku úrvalsdeildinni í byrjun ársins. Nordic Photos / Getty Images
Köln og Mainz áttu að mætast nú síðdegis í þýsku úrvalsdeildinni en ákveðið var að fresta leiknum þar sem að dómari leiksins, hinn 41 árs gamli Babak Rafati, reyndi að fyrirfara sér skömmu fyrir leikinn.

Eftir því sem fram kemur í þýskum fjölmiðlum fannst Rafati í hótelherbergi sínu um tveimur tímum eftir að leikurinn átti að hefjast. Ekki tókst að kalla á annan dómara með svo skömmum fyrirvara.

Var hann fluttur á sjúkrahús og er þessa stundina óvitað hvernig líðan hans er. Hann er þó enn á lífi.

Rafati fannst í baðkari á hótelherbergi sínu eftir að hurðin á herberginu hafði verið brotin niður af starfsmanni hótelsins. Dómarinn gisti á sama hóteli og leikmenn Mainz.

Rafati hefur dæmt 84 leiki í þýsku úrvalsdeildinni á ferlinum og tvo A-landsleiki. Hann er af írönskum ættum og starfar einnig í banka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×