Körfubolti

Haukarnir unnu sinn fyrsta sigur í Iceland Express deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Barja lék vel með Haukum í kvöld.
Emil Barja lék vel með Haukum í kvöld. Mynd/Stefán
Haukar fögnuðu sínum fyrsta sigri í Iceland Expreess deild karla í vetur þegar þeir unnu 78-73 sigur á Fjölni á Ásvöllum í kvöld. Fjölnismenn voru búnir að vinna tvo deildarleiki í röð fyrir leikinn en Haukarnir voru hinsvegar búnir að tapa fyrstu fjórum deildarleikjum sínum.

Christopher Smith var sínum gömlu félögum erfiður og skoraði 24 stig fyrir Hauka í leiknum en Emil Barja var með 14 stig og Jovanni Shuler bætti við 12 stigum og 18 fráköstum.

Nathan Walkup skoraði 22 stig fyrir Fjölni og Calvin O'Neal var með 20 stig en Árni Ragnarsson var stigahæsti íslensku leikmannanna með 15 stig. Fjölnir lék án leikstjórnanda síns Ægirs Þórs Steinarssonar í kvöld.

Leikur var jafn í byrjun en Fjölnir náði frábærum kafla í lok fyrsta leikhlutans og breytti stöðunni úr 9-10 í 9-19 á rúmum tveimur mínútum. Fjölnir var síðan 19-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann þar sem þeir Calvin O'Neal og Nathan Walkup voru stigahæstir með sex stig.

Fjölnir skoraði fyrstu körfu annars leikhluta og komst í 21-10 en Haukar svöruðu með 11 stigum í röð á tæpum tveimur mínútum þar af voru þrír þristar í röð. Staðan var því orðin jöfn, 21-21.

Fjölnismenn voru áfram skrefinu á undan og 37-31 yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Haukarnir skoruðu hinsvegar sjö síðustu stig hálfleiksins og voru 38-37 yfir í hálfleik. Christopher Smith var kominn með 14 stig í hálfleik.

Það var jafnt á flestum tölum í þriðja leikhlutanum en Haukar voru 56-55 yfir í lok hans eftir að hafa skorað fjögur síðustu stigin.

Haukar náðu frábærum kafla um miðjan fjórða leikhlutann þegar þeir skoruðu sjö stig í röð og breyttu stöðunni úr 58-58 í 65-58. Fjölnisliðið náði að koma til baka og komast yfir í 69-70 en Haukarnir voru sterkari í lokin og tryggðu sér sigur með því að skora fimm síðustu stigin í leiknum.



Haukar-Fjölnir 78-73 (10-19, 28-18, 18-18, 22-18)

Haukar: Christopher Smith 24/5 fráköst/7 varin skot, Emil Barja 14/5 fráköst, Jovanni Shuler 12/18 fráköst, Sævar Ingi Haraldsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 6, Örn Sigurðarson 5/8 fráköst, Helgi Björn Einarsson 4, Óskar Ingi Magnússon 3.

Fjölnir: Nathan Walkup 22/5 fráköst, Calvin O'Neal 20/7 fráköst, Árni Ragnarsson 15/5 fráköst, Jón Sverrisson 6/11 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5, Hjalti Vilhjálmsson 3, Trausti Eiríksson 2/7 fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×