Fótbolti

Bæjarar lögðu Augsburg - Gomez kominn með tuttugu mörk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bæjarar fagna í Augsburg í dag.
Bæjarar fagna í Augsburg í dag. Nordic Photos / Getty Images
Bayern München heldur toppsætinu í efstu deild þýska boltans eftir 2-1 útisigur á botnliði Augsburg. Lærisveinar Jupp Heynckes þurftu þó að hafa fyrir hlutunum og bjargaði Manuel Neuer, markvörður liðsins, stigunum þremur með frábærri vörslu seint í leiknum.

Franck Ribery og Mario Gomez skoruðu mörk Bæjara. Mark Gomez var hans þrettánda í deildinni á tímabilinu en hann hefur skorað tuttugu mörk samanlagt í öllum keppnum.

Bæjarar eru með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar að loknum tólf umferðum. Liðið hefur skorað langflest mörk eða 32 og aðeins fengið á sig fjögur.

Meistararnir í Dortmund, sem unnu 5-1 heimasigur á Köln í gær, eru í öðru sæti ásamt Werder Bremen og Gladbach. Schalke er í fimmta sæti með stigi minna eftir 2-2 jafntefli á útivelli gegn Hannover. Finninn Teemu Pukki skoraði bæði mörk Schalke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×