Fótbolti

Solbakken vill fá Björn Bergmann við hlið Podolski hjá Köln

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/Vilhelm
Björn Bergmann Sigurðarson gæti verið á leiðinni í þýska fótboltann ef marka má fréttir á þýska vefmiðlinum Express.de. Stale Solbakken, norski þjálfari Kölnarliðsins, hefur mikinn áhuga á íslenska 21 árs landsliðsmanninum sem hefur gert það gott í sumar.

Björn Bergmann meiddist reyndar í september og hefur ekkert getað leikið með Lilleström á lokakafla deildarinnar. Fram að því hafði hann farið á kostum enda búinn að skora 5 mörk og leggja upp sjö önnur fyrir félaga sína í Lilleström-liðinu.

Björn Bergmann skoraði einnig bæði mörk 21 árs landsliðsins í 2-1 sigri á Belgíu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM. Það er eini sigur 21 árs landsliðsins í riðlinum og jafnframt eini leikurinn sem liðið hefur getað stillt upp Birni í framlínunni.

Solbakken er sagður hafa áhuga bæði á Birni sem og Remi Johansen hjá Tromsö. Johansen er búinn að skora 2 mörk og gefa 5 stoðsendingar í 27 leikjum í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Solbakken er að leita sér að öðrum framherja við hlið þýska landsliðsmannsins Lukas Podolski en Podolski hefur farið á kostum á þessu tímabili og er með 9 mörk og 5 stoðsendingar í fyrstu ellefu umferðunum á þessu tímabili. Næsti sóknarmaður Kölnar er síðan aðeins með tvö mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×