Fótbolti

Norski Íslandsbaninn hélt upp á afmælið með því að skora hjá Neuer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohammed Abdellaoue fagnar marki sínu.
Mohammed Abdellaoue fagnar marki sínu. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Mohammed Abdellaoue hélt upp á 26 ára afmæli sitt í dag með því að verða fyrsti maðurinn til að skora hjá Manuel Neuer, markverði Bayern München, í 770 mínútur í þýsku úrvalsdeildinni. Abdellaoue kom þá Hannover 96 í 1-0 í óvæntum 2-1 sigri á toppliði Bayern München.

Mohammed Abdellaoue, kallaður Moa, skoraði einmitt sigurmarkið á lokamínútunum á móti Íslandi í Osló á dögunum en líkt og þá skoraði hann markið sitt í dag af vítapunktinum. Markið kom á 23. mínútu og fimm mínútum síðar var Bayern-maðurinn Jerome Boateng rekinn útaf.

Christian Pander skoraði seinna mark Hannover-liðsins á 50. mínútu og það varð síðan jafnt í liðum á 63. mnínútu þegar Cherundolo fékk sitt annað gula spjald. David Alab minnkaði muninn á 83. mínútu en nær komst Bayern-liðið ekki.

Manuel Neuer var farinn að nálgast met Timo Hildebrand sem hélt marki sínu hreinu í 884 mínútur en hann var búinn að halda marki sínu hreinu í átta deildarleikjum í röð

Þetta var jafnframt fyrsta deildartap Bayern síðan í fyrstu umferð í byrjun ágúst en liðið er nú með 22 stig og þriggja stiga forystu á Borussia Dortmund sem vann 5-0 stórsigur á Köln um helgina.

Schalke 04 er stigi á eftir Dortmund eftir 1-0 útisigur á Bayer Leverkusen í dag. Jefferson Farfán skoraði sigurmarkið sjö mínútum fyrir leikslok. Hannover 96 hefur einnig 18 stig en er með lakari markatölu en Schalke-liðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×