Körfubolti

Pétur: Hefði frekar viljað spila illa í 38 mínútur og vinna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka.
Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka. Mynd/Stefán
Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka var að vonum svekktur eftir 89-93 tap gegn Snæfelli í kvöld þar sem Haukar glopruðu niður unnum leik á síðustu tveimur mínútum leiksins.

„Þetta er 40 mínútur og maður þarf að fara góður í 40 mínútur en ekki 38. Við getum samt borið höfuðið hátt. Þetta eru deildarmeistararnir frá því í fyrra og með landsliðsmenn í sínu liði. Þeir eru með mjög vel mannað lið en auðvitað var sárt að tapa,“ sagði Pétur.

„Hvort sem við lékum vel í 38 mínútur eða Snæfell illa þá skiptir það mig engu máli úr þessu. Ég hefði frekar viljað spila illa í 38 og vel í tvær og vinna. Svona er þetta en þeir eru með hörkulið.“

Haukar léku við hvern sinn fingur og náðu níu stiga forystu þegar sex mínútur voru eftir en þá fór sóknarleikurinn að hiksta og Snæfell gekk á lagið.

„Þeir breyttu um varnartaktík og við settum skotin ekki ofan í. Við sættum okkur við þriggja stiga skot í stað þess að sækja að körfunni. Þeir spiluðu ákveðið og komust upp með það. Við sóttum að körfunni og fengum lítið af villum. Það er hluti af leiknum og þegar menn fara ekki nógu sterkt í hlutina þá fá menn ekki villur. Við þurfum að bæta það og fara sterkar í þetta,“ sagði Pétur sem lítur björtum augum á tímabilið.

„Þetta er langt tímabil og ef við ætlum að gefast upp núna erum við í slæmum málum en ég get tekið það út úr þess að þetta var ágætis byrjunarskref,“ sagði Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×