Körfubolti

Hreggviður: Tekur tæknilega meiri tíma að taka skot

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hreggviður Magnússon, leikmaður KR, setti stórt spurningamerki við sigurkörfu Grindvíkinga í viðureign liðanna í Vesturbænum í kvöld.

„Í fyrsta lagi held ég að það taki tæknilega meiri tíma en þessi sekúndubrot til þess að taka skot. Það er mjög leiðinlegt að tapa þessu svona á óvissuatriði. Ég óska þeim til hamingju. Þeir börðust vel og eru með skemmtilegt lið,“ sagði Hreggviður.

„Mér fannst þetta vera kaflaskiptur leikur. Annaðhvort voru þeir á nokkurra mínútna skriði eða við. Það var svolítill haustbragur á þessu hjá okkur. Við náðum ekki að skila fjörutíu mínútum af góðir vörn og góðri sókn. Við höfum aðeins náð að æfa saman í tvær vikur með fullmannað lið.“

Hreggviður skoraði 20 stig í leiknum auk þess að taka sex fráköst. Hann var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna en tólf stiganna komu þaðan. Hann sagðist ánægður með að búið væri að færa þriggja stiga línuna utar.

„Þetta skilur að alvöru skytturnar,“ sagði Hreggviður léttur. „Það skiptir engu máli. Þetta er breytt lið og skiptir engu máli hver skorar,“ bætti hann við.

Hreggviður telur að það eigi eftir að taka tíma fyrir KR-liðið að smella saman.

„Þetta verður svipað eins og í fyrra. Marcus Walker var frábær í lok tímabils. Hann byrjaði rólega, þurfti að finna sig. Við vorum með nýtt lið og það tók tíma að finna okkur. Þetta verður sama sagan í ár. Við erum með marga nýja leikmenn, tvo nýja útlendinga. Þetta verður lærdómskúrva að finna okkur og þessi leikur var dæmigerður fyrir það.“

Bandaríkjamennirnir David Tairu og Edward Horton Jr. spiluðu þokkalega í kvöld. Þeir virtust ná vel saman og Hreggviður hefur trú á þeim.

„Þeir eiga eftir að smella inn í þetta. Þeir eru með toppstykkið í lagi, vilja vinna og vinna fyrir liðið. Þurfa ekki að gera þetta á eigin spýtur. Þeir vilja gera það sem þarf til að liðið vinni þó það gekk ekki í kvöld. Ég held að þeir eigi eftir að smella vel inní þetta,“ sagði Hreggviður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×