Fótbolti

Messi skoraði þrjú og Barcelona vann stórsigur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Messi er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður heims.
Messi er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður heims. Nordic Photos / AFP
Argentínumaðurinn Lionel Messi skoraði þrennu fyrir Barcelona sem rúllaði yfir Atletico Madrid 5-0 á Nývangi í kvöld. Heimamenn skutust með sigrinum upp fyrir Real Madrid í þriðja sæti deildarinnar.

Gestirnir frá Madrid byrjuðu betur og áttu skot í slá strax í upphafi leiks. Eftir það tóku heimamenn völdin og liðsmenn Atletico sáu aldrei til sólar.

David Villa kom Barcelona yfir á 9. mínútu og eftir stundarfjórðung varð Miranda, varnarmaður Atletico, fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Þá var komið að þætti leikmanns númer 10 hjá Barcelona.

Messi skoraði fyrsta mark sitt á 26 mínútu eftir fallegan einleik. Hann bætti við öðru tólf mínútum fyrir leikslok og innsiglaði svo þrennu sína í viðbótartíma.

Argentínumaðurinn var því ekki eftirbátur kollega síns Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid sem skoraði þrennu í 6-2 sigri á Rayo Vallecano fyrr í kvöld.

Barcelona komst með sigrinum í þriðja sæti deildarinnar með 11 stig en Real Madrid er í því fjórða með tíu stig. Nýliðar Real Betis eru á toppnum með tólf stig en þeir mæta Getafe á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×