Fótbolti

Pálmi Rafn skoraði fyrir Stabæk sem hrundi í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálmi Rafn á æfingu íslenska landsliðsins árið 2009.
Pálmi Rafn á æfingu íslenska landsliðsins árið 2009. Mynd/Stefán
Mark Pálma Rafns Pálmasonar fyrir Stabæk gegn Tromsö í norsku úrvalsdeildinni í kvöld dugði skammt þar sem að síðarnefnda liðið vann á endanum 4-2 sigur.

Pálmi Rafn kom sínum mönnum í 2-1 forystu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Hins vegar gekk allt á afturfótunum hjá Stabæk í seinni hálfleik því Tromsö skoraði þá þrívegis og tryggði sér öruggan sigur.

Það kann þó ekki að segja alla söguna því samkvæmt úttekt síðunnar altomfotball.no sköpuðu leikmenn Stabæk sér átján marktækifæri í leiknum en Tromsö tólf.

Stabæk hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum að undanförnu og hefur til að mynda verið afar fáliðað á æfingum liðsins. Engu að síður hefur því gengið ágætlega á tímabilinu og er Stabæk nú í fjórða sæti deildarinnar með 33 stig, þrátt fyrir að hafa ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum.

Tromsö er í öðru sæti deildarinnar með 39 stig, fimm stigum á eftir toppliði Molde. Þjálfari þess er Ole Gunnar Solskjær, fyrrum leikmaður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×