Fótbolti

Drillo framlengir við Norðmenn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Egil Olsen var þekktur á sínum tíma fyrir að klæðast stígvélum reglulega.
Egil Olsen var þekktur á sínum tíma fyrir að klæðast stígvélum reglulega. Nordic Photos/AFP
Egil „Drillo" Olsen, landsliðsþjálfari Noregs í knattspyrnu karla, hefur framlengt samning sinn við norska knattspyrnusambandið til loka árs 2013.

„Egil hefur náð góðum árangri bæði skiptin sem hann hefur stýrt landsliðinu. Hann er reynslumikill og þekkir vel til í alþjóðaknattspyrnu," sagði Nils Johan Semb hjá norska sambandinu.

„Við skoðuðum nokkra möguleika en þessi ákvörðun sýnir að hann var besti kosturinn til þess að stýra liðinu."

Hinn 69 ára gamli Olsen stýrði norska landsliðinu á árunum 1990-1998 og kom liðinu í lokakeppni HM 1994 og 1998. Hann tók aftur við starfinu árið 2009 eftir að hafa stýrt landsliði Íraka til skamms tíma.

Samningurinn þýðir að Olsen stýrir landsliðinu út undankeppni heimsmeistaramótsins 2014 í Brasiíu. Komist landsliðið í lokakeppnina verður samningur hans sjálfkrafa lengdur fram yfir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×