Fótbolti

Veigar Páll hafði betur gegn Andrési Má

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. Mynd/Valli
Vålerenga vann í dag 3-2 sigur á Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Veigar Páll Gunnarsson lagði upp eitt mark Vålerenga í leiknum.

Veigar var tekinn af velli á 86. mínútu en Vålerenga er enn taplaust eftir að hann var keyptur til félagsins frá Stabæk fyrr í sumar.

Andrés Már Jóhannesson gekk í raðir Haugesund frá Fylki fyrir stuttu síðan og lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar. Hann nældi sér í gult spjald á 59. mínútu.

Alexander Söderlund, fyrrverandi leikmaður FH, skoraði annað marka Haugesund í leiknum.

Vålerenga er í áttunda sæti deildarinnar með 29 stig en Haugesund í því sjöunda með 30. Molde, lið Ole Gunnars Solskjær, er á toppnum með 41 stig og fimm stiga forystu á næsta lið.

Tveir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Jónas Guðni Sævarsson lék allan leikinn fyrir Halmstad sem vann 1-0 sigur á Trelleborg.

Þá gerðu Kalmar og IFK Gautaborg markalaust jafntefli. Hallgrímur Jónasson, Hjörtur Logi Valgarðsson og Theodór Elmar Bjarnason léku allan leikinn fyrir IFK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×