Fótbolti

Dortmund mun bara selja Götze til liðs utan Þýskalands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Götze í sigurleiknum á móti Brasilíu á dögunum.
Mario Götze í sigurleiknum á móti Brasilíu á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Borussia Dortmund ætlar ekki að selja undrabarnið sitt Mario Götze til annars félags í Þýskalandi en þetta ítrekaði framkvæmdastjórinn Hans-Joachim Watzke í dag. Mario Götze hefur vakið mikla athygli að undanförnu en þessi 19 ára strákur átti mikinn þátt í því að Dortmund varð þýskur meistari á síðustu leiktíð.

Mario Götze var með 6 mörk og 15 stoðsendingar á sínu fyrsta alvöru tímabili og var með mark og stoðsendingu í sínum fyrsta leik á þessu tímabili. Götze skoraði líka í sigri Þjóðverja á Brasilíu á dögunum.

Stóru klúbbarnir eru farnir að fylgjast með stráknum en Mario Götze er með samning við Dortmund fram í júní árið 2014. Watzke segir að félagið myndi ekki láta freistast af risatilboði frá erkifjendunum í Bayern Munchen.  

„Bayern getur sleppt því að leggja inn tilboð því það væri afar heimskulegt af okkur að selja hann til þeirra. Mario er búinn að vinna titilinn með okkur, hann er búinn að vera í félaginu í átta ár og fjölskyldan hans býr í borginni. Mario myndi aldrei fara í annað þýskt lið," sagði Hans-Joachim Watzke og bætti við:

„Það eru bara fjögur félög í heiminum sem eiga möguleika á því að kaupa hann og ekkert þeirra er staðsett í Þýskalandi," sagði Watzke. Sagan segir að Manchester United hafi mikinn áhuga á því að krækja í kappann ekki síst þar sem félaginu tókst ekki að fá Hollendinginn Wesley Sneijder frá Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×