Íslenski boltinn

Umfjöllun: Valskonur í úrslit fjórða árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir. Mynd/Daníel
Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði eina markið þegar Valskonur tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleiknum með 1-0 sigri á Aftureldingu í Mosfellsbænum í kvöld í undanúrslitaleik þeirra í Valitorbikarnum. Þetta er í fjórða árið í röð sem Valsliðið kemst alla leið í bikarúrslitin.

Valskonur voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum í kvöld. Þær mættu ákveðnar til leiks og sóttu af kappi en stelpurnar úr Mosfellsbæ vörðust sem mest þær máttu.

Á 21. mínútu leiksins kom fyrsta og eina mark leiksins. Þá sendi Dagný Brynjarsdóttir fyrir markið frá hægri þar sem Kristín Ýr var mætt og sendi boltann neðst í markhornið. Snyrtilegt mark og forystan verðskulduð.

Laufey Ólafsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir fengu fín færi fyrir Val í hálfleiknum sem nýttust ekki. Þá átti Kristín Ýr tvö góð færi til viðbótar en bæði skot hennar og skalli fóru yfir mark Mosfellinga.

Í síðari hálfleik var allt annað uppi á teningnum. Mosfellsstelpur ætluðu greinilega að selja sig dýrt enda sæti í úrslitaleik Valitor-bikarsins í húfi. Svo langt hefur Afturelding aldrei komist og möguleiki á að skrá sig í sögubækur félagsins.

Þrátt fyrir baráttu og vilja gáfu Valskonur aðeins eitt færi á sér. Það fékk Ahkeelea Mollon sem er í láni frá Stjörnunni. Hún komst þá ein gegn Meagan McCray sem varði mjög vel. Mollon var spræk í leiknum og góður liðsstyrkur fyrir Mosfellinga.

Á hinum enda vallarins komst varamaðurinn Björk Gunnarsdóttir næst því að skora þegar hörkuskot hennar small í slánni. Fleiri urðu mörkin ekki og Valskonur komnar í bikarúrslitin í tuttugasta skipti. Þær hafa leikið níu af síðustu ellefu úrslitaleikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×