Íslenski boltinn

Anna Garðars: Áttum helling í þessum leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anna Garðarsdóttir leikmaður Aftureldingar var svekkt með 1-0 tapið gegn Val í undanúrslitum Valitor-bikarsins. Anna er nýgengin í raðir Mosfellinga úr Val.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa. Mér fannst við eiga helling í þessum leik. Ég hefði kannski ekki verið ósátt fyrir leikinn með tap en ég er ósátt að hafa ekki fengið meira í dag," sagði Anna.

Valskonur voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Mosfellsstelpur komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik.

„Valur er með besta liðið. Það er engin spurning. Þær eru bæði sterkari og teknískari. En við börðumst vel, sérstaklega í seinni hálfleik."

Þetta var fyrsti leikur Önnu með Aftureldingu en hún kom til liðsins frá Val í félagaskiptaglugganum. Hún sér fram á bjarta tíma í Mosfellsbænum.

„Vonandi, mér sýnist það. Það eru komnir margir nýja leikmenn og við gerum okkar besta það sem eftir er af þessu. Þetta er bara spennnandi og gaman," sagði Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×