Viðskipti innlent

SS skráir sig á First North markaðinn

Stjórn Sláturfélags Suðurlands (SS) hefur samþykkt að skrá félagið á First North markaðinn hjá Kauphöllinni en SS hefur um árabil verið skráð á Opna tilboðsmarkaðnum þar á bæ. Stjórn félagsins telur mikilvægt að félagið sé skráð á markaði og First North markaðurinn henti félaginu vel.



Kauphöllin hefur samþykkt skráningu SS á First North markaðinn. Gert er ráð fyrir að viðskipti geti hafist með hlutabréf félagsins á First North markaðnum 14. júlí n.k. Um er að ræða 200 milljón hluti.



Í tilkynningu segir að SS hafi gert samkomulag við Deloitte hf. um að vera viðurkenndur ráðgjafi félagsins á First North markaðnum en gerð er krafa um að félög skráð á markaðnum hafi samning við viðurkenndan ráðgjafa sem starfar sem ráðgjafi félagsins meðan á skráningarferlinu stendur og eftir að því er lokið. Delotte hf. þekkir vel til SS þar sem Deloitte hf. hefur annast endurskoðun félagsins.



SS er eitt af elstu fyrirtækjum landsins en félagið var stofnað árið 1907. SS er leiðandi matvælafyrirtæki sem starfar á heildsölustigi. Skráning SS á First North markaðinn styrkir þá ímynd sem SS vill viðhalda gagnvart viðskiptavinum, félagsmönnum, starfsmönnum og eigendum hlutabréfa félagsins, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×