Körfubolti

Gunnar Einarsson leggur skóna á hilluna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Einarsson í leik með Keflavík gegn KR.
Gunnar Einarsson í leik með Keflavík gegn KR. Mynd/Vilhelm
Körfuknattleikskappinn Gunnar Einarsson hefur lagt skóna á hilluna. Gunnar sem er 34 ára er leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi. Víkurfréttir greina frá þessu á heimasíðu sinni.

Á vef Víkurfrétta kemur fram að Gunnar eigi rúmlega 800 leiki að baki og hafi lyft 21 titli með liðinu. Þar af séu sex Íslandsmeistaratitlar og þrír bikarmeistaratitlar. Gunnar á að baki 27 landsleiki fyrir Íslandshönd.

„Þegar líða tekur á seinni hluta ferilsins þá fara þessar spurningar að vakna hjá manni og var þetta þannig í mínu tilfelli að ég tók bara eitt ár í einu og á meðan kroppurinn var í lagi og eftir gott sumarfrí frá körfubolta þá mætti ég ferskur inn í undirbúningstímabilið. En það verður breyting á því hér með,“ sagði Gunnar í samtali við Víkurfréttir.

Gunnar segist ætla að koma að íþróttinni með nýrri nálgun. Hann sé á leið í einkaþjálfaranám. Hann ætli að hella sér út í þjálfun og koma íþróttamönnum í betra líkamlegt ástand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×