Fótbolti

Stuðningsmenn Bayern sömdu reglur fyrir Neuer

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Harðkjarna stuðningsmenn Bayern Munchen taka það ekki í mál að sætta sig við markvörðinn Manuel Neuer sem markvörð liðsins. Neuer kom til liðsins frá Schalke og er yfirlýstur stuðningsmaður liðsins og það kunna harðkjarnastuðningsmennirnir ekki að meta.

Vísir greindi frá því á dögunum að fjöldi þeirra hefði ferðast til Ítalíu á fyrsta leik Neuer með liðinu. Þar voru þeir með borða sem á stóð: "Þú getur varið eins marga bolta og þú vilt en við munum aldrei viðurkenna þig sem okkar markvörð."

Neuer hefur nú hitt nokkra af forsvarsmönnum þeirra fimm stuðningsmannahópa sem er illa við markvörðinn. Sá fundur skilaði litlu en mesta athygli vekur að stuðningsmennirnir settu markverðinum ákveðnar reglur.

"Manuel Neuer hefur tjáð okkur hvernig hann mun haga sér gagnvart okkur. Okkar álit á honum hefur samt ekkert breyst. Við tjáðum honum þess utan hvernig hann ætti að hegða sér gagnvart okkur," segir í yfirlýsingu á heimasíðu stuðningsmannanna.

"Ef Neuer fer eftir þessum reglum og heldur ákveðinni fjarlægð frá okkur þá verða ekki fleiri skipulögð mótmæli gegn honum."

Neuer hefur ekkert viljað tjá sig opinberlega um mótmælin en forráðamenn félagsins eru búnir að fá upp í kok af hegðun stuðningsmannanna.

"Minnihlutahópur getur ekki stjórnað því hvernig menn eiga að haga sér," sagði Jupp Heynckes, þjálfari liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×