Íslenski boltinn

Fanndís: Leiðinlegt að fá á sig svona aulamark

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fanndís Friðriksdóttir leikmaður Breiðabliks var svekkt eftir 4-2 tap á heimavelli gegn Þór/KA. Fanndís skoraði tvö mörk í leiknum en þau dugðu skammt.

„Ég er hálf orðlaus. Það er hundleiðinlegt að missa þetta niður. Við vorum heppnar að þær voru ekki búnar að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik. Við mættum ekki til leiks fyrr en við skoruðum. Þær áttu þetta skilið í dag," sagði Fanndís.

Fanndís sagði að þriðja mark Akureyringa hefði dregið mátt úr Blikunum.

„Það er leiðinlegt að fá á sig svona aulamark úr aukaspyrnu af mjög löngu færi," sagði Fanndís.

Fanndísi fannst Þór/KA hafa yfirburði á miðjunni sem skipti sköpum.

„Á miðjunni höfðu þær yfirhöndina. Þær unnu flest alla skallabolta. En það er leiðinlegt að svona gott lið geti ekki spilað venjulega. Þurfi að setja fimm í vörnina. Það er hundleiðinlegt."

Fanndís skoraði tvö mörk sem bæði komu eftir sendingar frá Gretu Mjöll Samúelsdóttur. Þær virtust ná vel saman í leiknum.

„Já það eru batamerki. Vonandi höldum við áfram og tökum næsta leik."

Blikar sitja nú fimm stigum á eftir Þór/KA. Fanndís segir spilamennskuna ekki hafa verið nógu góða.

„Nei við erum engan veg á þeirri braut sem við ætluðum okkur. Við ætluðum að vera í efri hlutanum en ekki staðið undir væntingum okkar sjálfra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×