Fótbolti

Hólmar: Samkeppni af hinu góða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson mun að öllu óbreyttu skrifa undir þriggja ára samning við þýska B-deildarfélagið Bochum.

„Það er búið að ganga frá öllum formsatriðum og á bara eftir að skrifa undir," sagði Hólmar í samtali við Vísi á æfingu U-21 landsliðsins í Álaborg í morgun.

Samningurinn var nánast frágenginn áður en EM U-21 liða hófst í Danmörku en það náðist ekki að skrifa undir í tæka tíð. Verður það því gert við fyrsta tækifæri.

Hólmar var að ljúka þriggja ára vist hjá West Ham þar sem hann fékk aldrei að spreyta sig með aðalliðinu en var lánaður til bæði til Cheltenham í Englandi sem og Roeselare í Belgíu.

Hólmar bindur miklar væntingar við að ganga til liðs við Bochum. „Þýska B-deildin er mjög sterk og hlakka ég til að fara þangað og sýna hvað ég get. Ég mun þurfa að berjast um sæti í byrjunarliðinu en samkeppni er holl og góð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×