Fótbolti

Ballack afþakkar kveðjuleik með þýska landsliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ballack og Löw fyrir framan myndavélina í Suður-Afríku síðastliðið sumar
Ballack og Löw fyrir framan myndavélina í Suður-Afríku síðastliðið sumar Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Ballack hefur brugðist illa við boði Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands, um að ljúka landsliðsferlinum í vináttuleik gegn Brasilíu í ágúst. Löw hefur sagst ekki ætla að velja fyrirliðann fyrrverandi aftur í landsliðið. Tími yngri leikmanna sé kominn.

Ballack hefur skorað 42 mörk í 98 landsleikjum fyrir Þýskaland.

„Að kalla þennan vináttuleik sem er löngu búið að skipuleggja kveðjuleik er hlægilegt. Ég veit að ég skulda aðdáendum mínum að spila kveðjuleik en ég get ekki tekið boðinu," sagði Ballack.

„Ég heyrði fyrst af því í gær í fréttatilkynningu, þar sem ég var í sumarfríi, að landsliðsþjálfarinn ætlaði ekki að velja mig aftur í hópinn. Stíll og innihald yfirlýsingar hans er í takt við framkomu hans í minn garð síðan ég meiddist síðastliðið sumar," bætti Ballack við.

Ballack sem leikur með Bayer Leverkusen hefur ekki leikið fyrir Þýskaland síðan hann meiddist á ökkla í mars á síðasta ári. Hann missti af HM í Suður-Afríku af þeim sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×