Íslenski boltinn

Birna Berg: Það þýðir ekkert að hætta núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir og félagar hennar í ÍBV-liðinu hafa byrjað frábærlega í sumar en nýliðarnir í Pepsi-deild kvenna eru með fullt hús eftir fyrstu þrjár umferðirnar. ÍBV vann 2-0 sigur á Breiðabliki í Kópavoginum í kvöld en hafði unnið tvo 5-0 sigra í fyrstu tveimur umferðunum.

„Þetta er eitthvað sem við erum búnar að bíða eftir í allan vetur. Þetta er frábær byrjun hjá nýliðum en það þýðir ekkert að hætta núna," sagði Birna Berg Haraldsdóttir, markvörður Eyjaliðsins en hún hefur haldið marki sínu hreinu í fyrstu þremur leikjunum.

„Ég er ánægð á meðan að markið er hreint því það er alltaf markmiðið hjá mér. Sigurinn er samt aðalatriðið," sagði Birna Berg.

„Við bjuggumst við baráttu í 90 mínútur og við vorum búnar að undirbúa okkur mjög vel fyrir þenann leik. Það eina sem hefur komist að í þessari viku er þessi leikur. Það var pínu stress í byrjun en mikil tilhlökkun og við bara kláruðum þetta," sagði Birna Berg.

„Jón Ólafur er duglegur að halda okkur niður á jörðinni og við förum ekkert að láta rigna upp í nefið á okkur," sagði Birna Berg sem var á dögunum valin besti ungi leikmaðurinn í N1 deild kvenna í handbolta.

„Ég elska að hafa mikið að gera og ég vil bara hafa það þannig," sagði Birna Berg sem ætlar að halda marki sínu hreinu áfram.

„Ég vona það að það sé langt í fyrsta markið á mig. Ég reyni að halda áfram hreinu en svo sjáum við bara til hvað gerist," sagði Birna Bergen það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×