Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Eitt stig er engan veginn nógu gott

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Breiðabliks, þurfti að sætta sig við 2-0 tap síns liðs á heimavelli á móti nýliðum ÍBV í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Blikakonur hafa þar með aðeins náð í eitt stig af níu mögulegum í fyrstu þremur umferðunum.

„Þetta er ekki að ganga. Það eru þrír leikir búnir að við erum bara með eitt stig sem er engan veginn nógu gott," sagði Jóhannes Karl.

„Spilamennskan var betri í kvöld en verið hefur og mér fannst við gera marga hluti alveg þokkalega en það var ekki nóg. Í kvöld vantaði síðustu sendinguna og að við værum að klára færin sem við vorum að fá. Við vorum að fá mikið af boltum inn í teig en það vantaði meiri harðfylgni og að stelpurnar mættu inn í boxið," sagði  Jóhannes Karl.

„Þetta er ekki að falla fyrir okkur þvi við erum að búa til færin en erum ekki að klára þau. það er dýrt á móti liði eins og ÍBV," sagði Jóhannes Karl.

„Botninum var náð á móti KR í síðasta leik því við spiluðum ekki næginlega vel í þeim leik og KR-ingarnir voru miklu grimmari en við. Í dag vorum við að leggja okkur fram, berjast og að gera skítavinnuna betur. Þær voru að nenna því að fara í tæklingarnar og oft á tíðum var ágætis spilamennska en endahnúturinn og síðasti þriðjungurinn var ekki góður," sagði Jóhannes Karl.

„Við erum með fína fótboltaleikmenn en við þurfum að fara að spila betur saman sem lið, pússa okkur saman og taka fyrstu þrjú stigin. Þá verður vonandi allt upp á við," sagði Jóhannes Karl en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×