Fótbolti

Arnór: Klína honum í sammarann eins og Bibercic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Arnór Smárason leikur með danska liðinu Esbjerg og segir stemninguna í Danmörku góða fyrir Evrópumeistaramót U-21 landsliða sem hefst á laugardaginn.

Arnór verður væntanlega í eldlínunni með íslenska liðinu en fyrsti mótherji þess verður Hvíta-Rússland en sá leikur fer fram í Árósum.

„Stemningin í Danmörku er góð. Danirnir eru með fínt lið og þetta hefur verið mikið á milli tannanna á fólki hér úti,“ sagði Arnór en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Esbjerg féll úr dönsku úrvalsdeildinni í vor en Arnór segir að hann verði að óbreyttu áfram leikmaður liðsins.

„Þetta hefur gengið upp og ofan. Ég hef verið í góðu formi og spilað marga leiki en það er ekki skemmtilegast í heimi að falla. Maður verður bara að bíta í það súra epli.“

„En núna erum við að einbeita okkur að EM og að gera góða hluti þar. Fyrsti leikurinn er mikilvægur en auðvitað væri gaman að klína honum upp í sammarann gegn Dönum eins og Mihajlo Bibercic gerði hérna í denn en við sjáum til hvernig fer,“ sagði Arnór kíminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×