Íslenski boltinn

Hallbera og Dagný báðar með tvennu í 6-1 sigri Vals á Þór/KA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Málfríður Erna Sigurðardóttir í leiknum í dag.
Málfríður Erna Sigurðardóttir í leiknum í dag. Mynd/Stefán
Íslandsmeistarar Vals voru í miklum ham á móti Þór/KA í lokaleik 4. umferðar Pepsi-deildar kvenna í kvöld en þær unnu leikinn 6-1 og skoruðu tveimur fleiri mörk í kvöld en í fyrstu þremur umferðunum. Með sigrinum komust Valskonur upp fyrir Stjörnuna og í annað sæti deildarinnar en nýliðar ÍBV eru með tveggja stiga forskot á toppnum.

Hallbera Guðný Gísladóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu báðar tvö mörk í kvöld en hin mörk Valsliðsins skoruðu þær Caitlin Miskel og Rakel Logadóttir. Mateja Zver minnkaði muninn fyrir Þór/KA.

Valskonur spiluðu frábærlega í kvöld og sýndu að þær eru búnar að hrista af sér slenið eftir rólega byrjun í deildinni. Þór/KA-liðið tapaði hinsvegar öðru sinni stórt í sumar en ÍBV vann þær 5-0 fyrir norðan í fyrstu umferðinni.

Hallbera Guðný Gísladóttir skoraði fyrsta markið með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu utan af kanti á 33. mínútu.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði annað markið á 38. mínútu með skoti utan úr teig eftir að boltinn barst til hennar eftir mikla pressu að marki Þór/KA.

Hallbera Guðný Gísladóttir skoraði þriðja markið beint úr aukaspyrnu af um 30 metra færi á 41. mínútu og höfðu Valskonur þar með skorað þrjú mörk á átta mínútna kafla.

Mateja Zver minnkaði muninn á 57. mínútu með þrumuskoti af löngu færi en Caitlin Miskel kom Val í 4-1 á 63. mínútu eftir að Þórsliðinu mistókst að hreinsa frá fyrirgjöf Thelmu Bjarkar Einarsdóttur.

Dagný skoraði sitt annað mark á 73. mínútu og kórónaði þar frábæran leik sinn. Rakel Logadóttir innsiglaði síðan sigurinn eftir flottan undirbúning Caitlin Miskel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×