Íslenski boltinn

Dagný: Það hefur verið erfitt að púsla miðjunni saman án Dóru og Kötu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Dagný Brynjarsdóttir átti frábæran leik á miðju Vals í 6-1 sigri á Þór/KA í lokaleik 4. umferðar Pepsi-deildar kvenna í fótbolta og skoraði tvö lagleg mörk í leiknum. Hún var líka ánægð í leikslok.

„Ég er mjög ánægð með okkur. Við börðumst allan tímann og mér fannst við eiga þetta skilið allan tímann," sagði Dagný Brynjarsdóttir í viðtali við Guðmund Marinó Ingvarsson hjá Sporttv.is eftir leikinn.

„Við misstu Dóru og Kötu af miðjunni fyrir tímabilið og það hefur verið erfitt að púsla miðjunni saman. Mér finnst þetta loksins vera að koma núna. Við misstum Mist niður í vörnina frá síðasta leik en mér fannst við samt ná að halda miðjunni. Það var gott," sagði Dagný en hún og hin fimmtán ára Hildur Antonsdóttir réðu ríkjum á miðjunni í kvöld.

„Ég spilaði fremst á miðjunni allt síðasta sumar og kann best við mig þar. Pála datt út í liðinu, Mist þurfti að detta niður í vörnina og ég fór niður á miðjuna. Ég ákvað bara að gera mitt besta þar," sagði Dagný sem skoraði sín fyrstu mörk á tímabilinu.

„Ég er búin að vera rög við að skjóta en lét loksins vaða í dag og þá skoraði ég. Þetta eru fyrstu tvö mörkin mín í mótinu þannig að loksins komu þau," sagði Dagný.

„Við vorum mjög góðar í dag en við reynum alltaf að gera okkar besta í hverjum leik. Við vorum mjög tilbúnar í þessum leik í dag en öll liðin í deildinni eru orðin svo sterk að við þurfum að fara hundrað prósent í alla leiki," sagði Dagný að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×