Körfubolti

Njarðvík samdi við tvo kana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðrik Ragnarsson er þjálfari Njarðvíkur ásamt Einari Árna Jóhannssyni.
Friðrik Ragnarsson er þjálfari Njarðvíkur ásamt Einari Árna Jóhannssyni.
Njarðvík hefur gengið frá samningum við tvo bandaríska leikmenn sem munu leika með félaginu á næsta tímabili í Iceland Express-deild karla. Þetta kom fram á karfan.is.

Félögum er nú heimilt að vera með tvo Bandaríkjamenn í sínu liði en breytingin var samþykkt á síðasta ársþingi KKÍ.

Gríðarlega miklar breytingar hafa verið á leikmannahópi liðsins en fram kemur í áðurnefndri frétt að tíu af leikmönnunum tólf sem léku með Njarðvík gegn KR í úrslitakeppninni í vor munu ekki leika með liðinu á næsta tímabili.

Brenton Birmingham, Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson eru hættir og þeir Guðmundur Jónsson, Jóhann Árni Ólafsson, Egill Jónasson og Kristján Sigurðsson halda á önnur mið. Þá koma þeir þrír útlendingar sem léku með liðinu ekki aftur.

Bandaríkjamennirnir tveir sem koma nú heita Travis Holmes og Chris Sprinker. Holmes er bakvörður en Sprinker miðherji.

Þá gerði körfuknattleiksdeild Njarðvíkur samninga við tólf leikmenn í upphafi mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×