Íslenski boltinn

Stórleikur í kvennafótboltanum í kvöld - Valur og Stjarnan mætast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Það verður stórleikur í Pepsi-deild kvenna í kvöld þegar Íslandsmeistarar Vals fá Stjörnuna í heimsókn á Vodafonevöllinn að Hlíðarenda. Valur tapaði óvænt tveimur stigum í síðustu umferð en Stjarnan er annað tveggja liða með fullt hús eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Stjörnuliðið hefur unnið tvo örugga sigra á Fylki (3-0) og Þrótti (4-0) í fyrstu tveimur leikjum sínum og vann auk þess Valskonur tvisvar sinnum á undirbúningstímabilinu, fyrst 3-0 sigur í riðlakeppni Lengjubikarsins og svo 2-1 sigur í sjálfum úrslitaleiknum.

Stjarnan var líka eina liðið sem Valskonum tókst ekki að vinna í Pepsi-deild kvenna í fyrrasumar en Valur vann reyndar bikarúrslitaleik liðanna 1-0. Liðin gerðu 1-1 og 2-2 jafntefli í deildarleikjunum þar sem Valskonur skoruðu jöfnunarmarkið í lokin í þeim báðum.

Tveir aðrir leikir fara líka fram í deildinni í kvöld. Afturelding og Grindavík mætast á Varmárvelli og á Valbjarnarvelli mætast tvö röndótt Reykjavíkurlið, Þróttur og KR.  Allir leikirnir í kvöld hefjast kl. 19:15.

Umferðinni lýkur svo á morgun með tveimur leikjum.  Á Kópavogsvelli kl. 18:00 taka Blikar á móti ÍBV en Eyjakonur hafa byrjað mótið af krafti, eru með fullt hús og markatöluna 10-0.  Á Fylkisvelli kl. 18:30 leika svo Fylkir og Þór/KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×