Fótbolti

Stuðningsmaður Schalke löðrungaði Neuer í bikarfögnuðinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer endaði ferilinn hjá Schalke 04 með því að taka við þýska bikarnum eftir 5-0 sigur á Duisburg í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Hinn 25 ára gamli markvörður er nú á leiðinni til Bayern Munchen eftir tveggja áratuga veru í Schalke og einn stuðningsmaður félagsins sýndi óánægju sína í verki með að Neuer skyldi ekki endurnýja samning sinn við félagið.

Manuel Neuer og félagi hans Mathias Schober sátu í blæjubíl sem var keyrt í gegn þúsundir af kátum stuðningsmönnum Schalke í sigurhátíðinni á götum Gelsenkirchen í gær og það leit út fyrir að allir væru samankomnir til að fagna bikarmeistaratitlinum.

Neuer snýr sér þá að manni með svarta derhúfu sem virðist ætla að faðma hann en áður en kemur að því þá slær maðurinn Neuer utan undir. Það má sjá upptöku af atvikinu hér fyrir ofan.

Það kom aðeins á Neuer við þetta en það liðu aðeins nokkur andatök þar til að hann var farinn að fagna á nýjan leik. „Svona hlutir hafa engin áhrif á mig," sagði Manuel Neuer um atvikið í viðtalið við Bild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×