Fótbolti

Löw: Klose er enn framherji númer eitt hjá þýska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Gomez og Miroslav Klose fagna marki Gomez með Bayern á tímabilinu.
Mario Gomez og Miroslav Klose fagna marki Gomez með Bayern á tímabilinu. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins í fótbolta, segir að Miroslav Klose sé ennþá framherji númer eitt hjá landsliðinu þrátt fyrir að Klose hafi misst sæti sitt til Mario Gomez hjá Bayern Munchen.

Klose er orðinn 32 ára gamall en hann hefur skorað 61 mark fyrir landsliðið í 108 leikjum og vantar aðeins sjö mörk til að jafna markamet Gerd Muller.

„Miro hefur enn smá forskot á Mario af því að hann getur breytt leikstíl sínum og aðlagast leik liðsins betur. Hann er fjölhæfari leikmaður," sagði Joachim Löw.

Mario Gomez er 25 ára gamall og varð markakóngur þýsku deildarinnar á þessu tímabili með 28 mörk í 32 leikjum. Klose skoraði hinsvegar aðeins 1 mark í 20 deildarleikjum og var aðeins níu sinnum í byrjunarliði Bayern.

Gomez hefur skorað 15 mörk í 43 landsleikjum en hann gæti fengið tækifæri í leik á móti Aserbaídjan 7. júní þegar Löw ætlar að breyta leikkerfi sínu og spila með tvo framherja.

Fram að því, í vináttulandsleik við Úrúgvæ og leik við Austurríki í undankeppni EM, verður Klose einn frammi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×