Fótbolti

Solbakken tekur við Köln

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ekkert verður að því að Ståle Solbakken muni taka við norska landsliðinu árið 2012 því hann hefur samþykkt að taka við þjálfun þýska liðsins FC Köln.

Solbakken stýrði FC Kaupmannahöfn með frábærum árangri í vetur en liðið rúllaði upp deildinni heima og komst í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Hann var búinn að samþykkja að taka við norska landsliðinu eftir að undankeppni EM 2012 lýkur en nú er ljóst að ekkert verður úr því.

„Ég er stoltur og glaður yfir því að fá að upplifa þjálfaraævintýri í einu af fjórum stærstu deildum Evrópu,“ sagði Solbakken á blaðamannafundi í dag.

„Eftir að hafa rætt við félagið í vikunni ákvað ég að lokum að taka tilboði þess,“ bætti hann við.

Hann bætti því við að norska knattspyrnusambandið hafi vitað af viðræðum hans við þýska félagið og að þau hefðu rætt saman um fjárhagslegar bætur fyrir að rifta samningi Solbakken við norska sambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×