Fótbolti

Neuer nálgast Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Uli Höness, forseti Bayern München, segir að félagið hafi komist að grófu samkomulagi við Schalke um kaup á markverðinum Manuel Neuer.

„Spurningin er nú hvort að Schalke vilji ganga frá samningum á formlegan máta,“ sagði hann í samtali við þýska fjölmiðla í gær.

Schalke mætir Duisburg, sem leikur í þýsku B-deildinni, í úrslitum þýsku bikarkeppninnar næstkomandi laugardag og segir Höness að svo gæti farið að gengið verði frá samningum fyrir leikinn.

„Það er undir þeim komið að ákveða hvort að hvort það sé betra að tilkynna um samninginn fyrir eða eftir leikinn,“ sagði Höness.

Samkvæmt þýskum fjölmiðlum bauð Bayern fyrst um fjórtán milljónir evra fyrir Neuer sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Schalke.

Því var hafnað en nú er talið að Bayern sé reiðubúið að greiða um 18-20 milljónir auk bónusa ef Neuer spilar ákveðinn fjölda leikja.

Neuer hefur verið hjá Schalke allan sinn feril en hann tilkynnti félaginu á dögunum að hann myndi ekki framlengja núverandi samning.

Höness sagði einnig að Bayern hefði einnig áhuga á miðvallarleikmanninum Arturo Vidal, leikmanni Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×