Fótbolti

John O'Shea: Mjög sáttur að fá að bera fyrirliðabandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John O'Shea fagnar með félögum sínum í gær.
John O'Shea fagnar með félögum sínum í gær. Mynd/AP
Írinn John O'Shea bar fyrirliðabandið þegar Manchester United tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með 4-1 stórsigri á þýska liðinu Schalke í seinni undanúrslitaleik liðanna á Old Trafford í gær. Framundan er því úrslitaleikur á móti Barcelona á Wembley 28. maí næstkomandi.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gerði átta breytingar á byrjunarliði sínu frá því í tapinu á móti Arsenal um síðustu helgi. Einhver hefði búist við því að Paul Scholes yrði fyrirliði en Sir Alex valdi John O'Shea.

„Ég var mjög sáttur með að stjórinn gerði mig að fyrirliða í þessum leik. Þetta var frábær leikur til þess að vera fyrirliði í en það mikilvægasta var að við náðum góðum úrslitum og tryggðum okkur sætið í úrslitaleiknum," sagði John O'Shea.

„Við sýndum í þessum leik hvað við erum með sterkan hóp. Við hefðum getað skorað fleiri mörk en vorum samt mjög ánægðir með úrslitin. Það vantaði upp á kraftinn og grimmdina á móti Arsenal en það var allt annað upp á teningum núna. Stjórinn tók áhættu með þessu liðsvali en hann hefur trú á sínum leikmönnum," sagði O'Shea.

„Wembley og Manchester United eiga saman frábæra sögu en vonandi verður við búnir að tryggja okkur meistaratitilinn áður en kemur að þessum úrslitaleik. Framundan eru þrír risaleikir í deildinni og við verðum að geyma það að hugsa um Barcelona þar til að við höfum klárað þá," sagði O'Shea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×