Handbolti

Aron markahæstur þegar Kiel vann þýska bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Aron Pálmarsson átti mjög góðan leik þegar hann og félagar hans í Kiel urðu þýskir bikarmeistarar eftir sex marka sigur á Flensburg-Handewitt, 30-24, í bikarúrslitaleiknum í Hamburg. Alfreð Gíslason gerði því Kiel að bikarmeisturum í annað skiptið á þremur árum.

Aron var markahæstur í liði Kiel ásamt þeim Christian Zeitz og Filip Jicha en allir gerðu þeir sex mörk. Aron fékk sæti í byrjunarliðinu eftir góða frammistöðu í undanúrslitaleiknum í gær og nýtti það afar vel. Aron hefur nú náð að vinna alla þrjá stóru titlana á fyrstu tveimur árum sínum með Kiel.

Þetta er í sjöunda skipti sem Kiel verður þýskur bikarmeistari en félagið var nú að vinna bikarinn í fjórða sinn á fimm árum. Alfreð Gíslason hefur nú unnið titil á hverju ári síðan að hann tók við Kiel sem er frábær árangur.

Flensburg var með frumkvæðið í upphafi leiks en tvö mörk á 46 sekúndum frá Filip Jicha komu Kiel yfir í 5-3.

Aron Pálmarsson skoraði síðan fjögur mörk Kiel í röð þegar liðið breytti stöðunni úr 5-4 í 9-6 og var eftir það með ágætt tak á leiknum.

Kiel náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleiknum en var 16-13 yfir í hálfleik.  Aron var markahæstur hjá Kiel í hálfleik með 4 mörk en Dominik Klein var þá kominn með 3 mörk.

Kiel landaði síðan öruggum og sannfærandi sigri í seinni hálfleiknum og það er í raun ótrúlegt að Flensburg-liðið hafi náð að slá út Rhein-Neckar Löwen í undanúrslitunum í gær. Aron bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik og fékk síðan nokkur dauðafæri til viðbótar þegar leikurinn var unninn en tókst ekki að bæta við mörkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×