Fótbolti

Real Madrid kaupir stórstjörnu frá Dortmund

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nuri Sahin á blaðamannafundinum í morgun.
Nuri Sahin á blaðamannafundinum í morgun. Nordic Photos / Bongarts
Nuri Sahin, 22 ára miðvallarleikmaður Dortmund í Þýskalandi, er á leið til Real Madrid á Spáni en það var tilkynnt á heimasíðu síðarnefnda félagsins í dag.

Sahin er fæddur í Þýskalandi en er af tyrkneskum ættum og leikur með tyrkneska landsliðinu. Hann varð í ágúst árið 2005, þá sextán ára gamall, yngstur til að spila í þýsku úrvalsdeildinni og hann bætti annað met þegar hann skoraði sitt fyrsta mark þremur mánuðum síðar.

Í október á sama ári varð hann einnig yngsti leikmaður tyrkneska landsliðsins til að skora mark í landsleik en það gerði hann einmitt í leik gegn þýska landsliðinu.

Dortmund varð nýverið þýskur meistari og átti Sahin sinn þátt í því. Hann skoraði sex mörk á tímabilinu en alls hefur hann skorað þrettán mörk í 135 leikjum með félaginu. Hann var lánaður til Feyenoord í Hollandi tímabilið 2007-8.

„Ég er mjög stoltur af því að taka þetta skref nú,“ sagði Sahin á blaðamannafundi í morgun. „Ég mun sakna Dortmund, þýsku úrvalsdeildarinnar og míns heimalands. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í gegnum tíðina.“

Jose Mourinho er stjóri Real Madrid og er nú þegar byrjaður að styrkja sitt lið fyrir átök næstu leiktíðar. Real féll nýverið úr leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og á litlan sem engan möguleika á að vinna spænska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×