Fótbolti

Schalke viðurkennir að Neuer fari í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Forráðamenn þýska liðsins Schalke eru búnir að sætta sig við það að markvörðurinn Manuel Neuer muni fara frá liðinu nú í sumar.

Neuer hefur verið sterklega orðaður við Bayern München að undanförnu en hann á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við Schalke.

Neuer hafnaði nýju samningstilboði frá Schalke og því þykir útséð að kappinn muni róa á ný mið í sumar.

„Þó okkur þyki þetta leiðinlegt þá er þetta þróun málanna. Við sættum okkur við það og berum virðingu fyrir ákvörðun hans,“ sagði Horst Heldt, yfirmaður íþróttamála hjá Schalke.

„Hvernig hans mál munu þróast næstu vikurnar eða mánuðina verður að koma í ljós. Við ætlum að einbeita okkur að þeim áskorunum sem eru fram undan inn á knattspyrnuvellinum,“ bætti hann við en Schalke mætir Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Ég tók þessa ákvörðun sjálfur, án utanaðkomandi áhrifa,“ sagði Neuer í viðtali á heimasíðu Schalke. „Ég á Schalke margt að þakka en ég vil gjarnan breyta til eftir að hafa þjónað félaginu samviskusamlega í 20 ár,“ sagpði hinn 25 ára gamli Neuer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×