Fótbolti

Podolski ætlar ekki að fara frá Köln

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski segist ætla að halda trú við sitt félag, Köln, þrátt fyrir að það falli í þýsku B-deildina í vor.

„Það gerir mér gott að vera hjá Köln. Þetta er mitt félag og minn bær,“ sagði hann. „Ef ég fæ að ráða einhverju þá verð ég hér enn á næsta tímabili.“

Köln er í fjórtánda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar sem stendur, sex stigum frá fallsæti. Podolski sneri aftur til síns gamla félags árið 2009 eftir nokkurra ára veru hjá Bayern München.

Það hefur ýmislegt gengið á hjá Köln í vetur og er félagið enn að leita að knattspyrnustjóra eftir að Frank Schäfer var rekinn.

„Þetta félag er eins og sirkus. Það eru engar stórar stjörnur hjá félögum eins og Mainz, Dortmund og Hannover en hjá þeim félögum eru allir að vinna að sama markmiði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×