Körfubolti

NBA í nótt: New Orleans jafnaði metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Paul náði að stöðva Kobe og félaga í nótt.
Chris Paul náði að stöðva Kobe og félaga í nótt. Mynd/AP
New Orleans Hornets jafnaði í nótt metin í rimmu sinni gegn LA Lakers í fyrst umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni í 2-2.

New Orleans vann viðureign liðanna á heimavelli í nótt, 93-88, þar sem Chris Paul fór á kostum og náði sinni fyrstu þrefaldri tvennu á tímabilinu. Hann skoraði 27 stig, gaf fimmtán stoðsendingar og tók þrettán fráköst.

Paul reyndist sérstaklega dýrmætur á lokasprettinum en hann skoraði fjórtán stig í fjórða leikhluta og gaf svo stoðsendingu á Jarrett Jack úr erfiðri stöðu þegar tíu sekúndur voru eftir. Jack skoraði og kom sínum mönnum í 90-86 sem dugaði til að klára leikinn.

Kobe Bryant náði sér ekki á strik og nýtti aðeins fimm af sautján skotum í leiknum. Hann skoraði sautján stig og ekkert fyrr en í seinni hálfleik.

Fimmti leikur liðanna fer fram í Los Angeles á aðfaranótt miðvikudags og sá sjötti aftur í New Orleans tveimur dögum síðar.

Atlanta vann Orlando, 88-85, og tók þar með 3-1 forystu í rimmu liðanna. Joe Johnson setti niður fjögur vítaköst á síðustu 20 sekúndunum sem dugði til að tryggja sigurinn.

Jamal Crawford átti góðan leik en hann skoraði 25 stig þrátt fyrir að hafa verið varamaður í leiknum.

Atlanta getur nú tryggt sér sigurinn í rimmunnni með sigri í leik liðanna í Orlando annað kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×