Körfubolti

Teitur kominn í lokaúrslitin í þrettánda sinn á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur langmestu reynsluna af því að spila um Íslandsmeistaratitilinn af öllum þeim sem taka þátt í úrslitaeinvígi KR og Stjörnunnar.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur langmestu reynsluna af því að spila um Íslandsmeistaratitilinn af öllum þeim sem taka þátt í úrslitaeinvígi KR og Stjörnunnar. Mynd/Vilhelm
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur langmestu reynsluna af því að spila um Íslandsmeistaratitilinn af öllum þeim sem taka þátt í úrslitaeinvígi KR og Stjörnunnar. Fyrsti leikur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla er klukkan 19.15 í DHL-höllinni í kvöld og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Þjálfarinn er nú að fara taka þátt í sínu þrettánda úrslitaeinvígi um titilinn en hann er eini leikmaður sögunnar sem hefur náð að vinna tíu Íslandsmeistaratitla í úrslitakeppni. Þetta er í fyrsta sinn sem Teitur er "aðeins" í hlutverki þjálfara í úrslitaeinvíginu en hann var spilandi þjálfari þegar Njarðvík vann titilinn 2001.

Teitur vann alls 10 af þeim 12 úrslitaeinvígum sem hann tók þátt í með Njarðvíkurliðinu og var í sigurliði í 29 af 42 leikjum sem hann spilaði um Íslandsmeistaratitilinn. Teitur skoraði 15,5 stig að meðaltali í þessum 42 leikjum um Íslandsmeistaratitilinn.

Teitur hefur í raun aðeins tapað tveimur úrslitaeinvígum um titilinn og báðum þeirra tapaði lið hans í oddaleik. Njarðvík tapaði í tvíframlengdum oddaleik á móti Haukum árið 1988 og svo í oddaleik á móti Keflavík árið 1999.

Teitur vann hinsvegar Íslandsmeistaratitilinn með Njarðvík 1984, 1985, 1986, 1987, 1991, 1994, 1995, 1998, 2001 og 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×