Körfubolti

Keflavík í viðræðum við Sigurð Ingimundarson

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður fagnar hér Íslandsmeistaratitli með Keflavík.
Sigurður fagnar hér Íslandsmeistaratitli með Keflavík.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur stendur uppi þjálfaralaus í kjölfar þess að Guðjón Skúlason hætti með karlalið félagsins í dag. Áður hafði Jón Halldór Eðvaldsson hætt með kvennaliðið.

"Það er löng biðröð eftir því að þjálfa hjá okkur," sagði kokhraustur og áhyggjulaus formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, Gunnar Jóhannsson, við Vísi í dag.

"Guðjóni fannst hann ekki hafa náð þeim árangri sem hann vildi ná með liðið og þess vegna hætti hann. Það sagði hann við mig í dag."

Gunnar segir að körfuknattleiksdeildin ætli að vinna málið hratt og stefnan að ráða þjálfara í þessari viku. Nafn Sigurðar Ingimundarsonar, fyrrum þjálfara Keflavíkur, hefur komið upp í umræðunni og Gunnar segir hann koma til greina.

"Sigurður er klárlega valmöguleiki. Við erum fínir vinir og höfum því þegar rætt þessi mál. Ef allt fer að óskum verður tíðinda að vænta af þjálfaramálunum í þessari viku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×