Fótbolti

Schalke sendi skýr skilaboð til Manchester

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Schalke fagna.
Leikmenn Schalke fagna. Nordic Photos / Bongarts
Schalke komst áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu með miklum stæl í kvöld. Liðið lagði Evrópumeistara Inter á heimavelli, 2-1, og 7-3 samanlagt.

Schalke mætir Manchester United í undanúrslitum og ljóst að Sir Alex Ferguson hefur ekki efni á að vanmeta þá þýsku í þeirri rimmu, þrátt fyrir slakt gengi heima fyrir hjá þeim þýsku.

Ralf Rangnick, sem tók við Schalke í síðasta mánuði, hefur hleypt nýju lífi í lið Schalke enda átti varla nokkur maður von á því að liðið myndi skora sjö mörk í tveimur leikjum gegn Evrópumeisturum Inter.

Spánverjinn Raúl heldur áfram að gera það gott í Meistaradeildinni en hann skoraði fyrra mark liðsins í kvöld og lagði svo það síðara upp fyrir varnarmanninn Benedikt Höwedes.

Mark Raul kom í lok fyrri hálfleiks en hann fékk sendingu frá Jose Manuel Jurado inn fyrir vörn Inter, lék á Julio Cesar markvörð og skoraði í autt markið.

Í upphafi síðari hálfleiks náði þó Thiago Motta að jafna metin fyrir Inter er hann skallaði fyrirgjöf Lucio í mark heimamanna.

Þrátt fyrir þetta voru vonir Ítalanna litlar enda hefðu þeir þurft fjögur mörk í viðbót til að tryggja sér sigur í einvíginu. Höwedes gerði svo endanlega út um rimmunna er hann fékk laglega sendingu frá Raul inn fyrir vörn Inter og skoraði með föstu skoti.

Þrátt fyrir mikla yfirburði eftir fyrri leikinn slakaði Schalke ekki á klónni í kvöld og sendi Manchester United skýr skilaboð fyrir rimmu liðanna sem hefst eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×