Fótbolti

Redknapp: Verðum að vera aftur með á næsta ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hvatti sína menn til að sýna hvað í þeim býr og tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu aftur fyrir næsta tímabil.

Til þess þarf liðið að tryggja sér eitt af fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er nú í fimmta sæti, þremur stigum á eftir Manchester City sem er í því fjórða. Tottenham á þó leik til góða.

Tottenham féll í kvöld úr leik í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 5-0 samanlagt tap fyrir Real Madrid. Þeir spænsku unnu fyrri leikinn 4-0 og því var leikurinn í kvöld hálfgert formsatriði.

„Það er ekki nógu gott að vera með einu sinni og svo ekki meir,“ sagði Redknapp eftir leikinn í kvöld. „Við verðum að bæta okkur og vera aftur með á næsta ári.“

„Við höfum séð leikmenn sem hafa spilað í þessum gæðaflokki og við verðum að fínstilla okkar leikmannahóp þannig að okkur takist að komast þangað aftur. Við þurfum að taka okkur lið eins og Arsenal, Chelsea og Manchester United til fyrirmyndar í þessum efnum.“

„Við verðum að vera fyrir ofan Manchester City og Chelsea í deildinni,“ bætti Redknapp við en Chelsea er nú í þrijða sætinu með 58 stig, fimm á undan Tottenham. „Það er okkar markmið. Þetta verður ekki auðvelt en það er það sem við viljum gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×