Körfubolti

NBA: Chicago Bulls endaði eitt á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Thibodeau, þjálfari Chicago.
Tom Thibodeau, þjálfari Chicago. Mynd/AP
Chivago Bulls vann sinn 62. leik á tímabilinu og tryggði sér heimavallarrétt út úrslitakeppnina þegar síðustu leikir deildarkeppni NBA-deildarinnar í körfubolta fóru fram í nótt. San Antonio Spurs missti af tækifærinu á því að vera með Chicago í efsta sætinu þegar liðið tapaði fyrir Phoenix Suns. Los Angeles Lakers þurfti framlengingu til þess að vinna Sacramento Kings en tryggði sér með því annað sætið í Vestrinu. Miami Heat vann án þeirra LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh og Boston Celtics vann New York Knicks í upphitun, án flesta aðalleikaranna, fyrir einvígi liðanna í fyrstu umferð.

Kyle Korver skoraði 19 stig og Derrick Rose var með 15 stig þegar Chicago Bulls vann 97-92 sigur á New Jersey Nets. Joakim Noah var með 10 stig og 19 fráköst fyrir Bulls-liðið sem náði jafngóðum árangri í vetur og þegar Michael Jordan lék síðast með liðinu tímabilið 1997-98.

Með því að stýra liðinu til sigurs í 62 leikjum þá jafnaði Tom Thibodeau, þjálfari Chicago, líka met Paul Westphal (Phoenix, 1992-93) yfir flesta sigra á sínu fyrsta ári. Jordan Farmar var með 21 stig og 12 stoðsendingar hjá New Jersey.

Marcin Gortat var með 21 stig og 13 fráköst þegar Phoenix Suns vann 106-103 sigur á San Antonio Spurs og kom í veg fyrir að Spurs-liðið væri með besta árangurinn í deildinni ásamt Chicago Bulls.

Manu Ginobili meiddist á olnboga í leiknum í fyrsta leikhluta og varð að hætta. Channing Frye og Jared Dudley skoruðu báðir 17 stig og Grant Hill var með 14 stig. Tim Duncan var með 17 stig og 12 fráköst og Gary Neal skoraði 14 stig.









Mynd/AP
Kobe Bryant var með 36 stig og kom Los Angeles Lakers í framlengingu með þriggja stiga körfu 4,6 sekúndum fyrir leikslok í 116-108 útisigri á Sacramento Kings. Lakers tryggði sér þar með annað sætið í Vesturdeildinni.

Lamar Odom var með 22 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar og Pau Gasol bætti við 18 stigum, 13 fráköstum og 6 stoðsendingum. Marcus Thornton skoraði 33 stig fyrir Sacramento og Tyreke Evans var með 16 stig í hugsanlega síðasta heimaleik liðsins í Sacramento en margt bendir til þess að Kings-liðið flytji til Anaheim í sumar.

Eddie House skoraði 35 stig og Juwan Howard var með 18 stig þegar Miami lék án þriggja stærstu stjarna sinna og vann 97-79 útisigur á Toronto Raptors. Erik Spoelstra, þjálfari Miami, ákvað að hvíla þá LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh en auk þess gat Mike Miller ekki leikið með vegna meiðsla.

House setti nýtt persónulegt stigamet en hann setti niður 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum. Miami vann fjóra síðustu leiki tímabilsins og ennfremur 15 af síðustu 18 leikjum sínum. Jerryd Bayless skoraði 21 stig fyrir Toronto.

Avery Bradley setti persónulegt met með því að skora 20 stig fyrir Boston Celtics í 112-102 sigri á New York Knicks í skrýtnum leik þar sem þjálfar liðanna hvíldu flest alla byrjunarliðsleikmenn sína fyrir komandi einvígi þessara sömu liða í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Sasha Pavlovic skoraði 19 stig fyrir Boston og Glen Davis var með 17 stig. Amare Stoudemire skoraði 14 stig á 20 mínútum hjá New York en Landry Fields var stigahæstur með 16 stig.



Blake Griffin.Mynd/AP
Ryan Anderson skoraði 14 stig og Dwight Howard var með 13 stig og 13 fráköst þegar Orlando Magic vann 92-74 sigur á Indiana Pacers. Mike Dunleavy og Brandon Rush skoruðu báðir 16 stig fyrir Indiana.

Blake Griffin endaði tímabilið á þrennu í 110-103 sigri Los Angeles Clippers á Memphis Grizzlies en þessi væntanlega besti nýliði ársins var með 31 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Eric Gordon skoraði 24 stig fyrir Clippers en Sam Young var stigahæstur hjá Memphis með 22 stig.

Dirk Nowitzki var með 32 stig þegar Dallas Mavericks vann 121-89 sigur á New Orleans Hornets en Jarrett Jack skoraði mest fyrir Hornets eða 22 stig.

Gordon Hayward.Mynd/AP
Reggie Williams skoraði 28 stig og Stephen Curry var með 18 stig og 9 stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann 110-86 sigur á Portland Trail Blazers. Patty Mills skoraði mest fyrir Portland eða 23 stig en Wesley Matthews var með 18 stig.

Brandon Jennings skoraði 16 stig fyrir Milwaukee Bucks sem vann 110-106 útsigur á Oklahoma City Thunder í framlengdum leik. Jennings skoraði 8 stig gegn tveimur frá öllu Thunder-liðinu á síðustu 2 mínútum og 21 sekúndu leiksins. Russell Westbrook var með 20 stig og Kevin Durant skoraði 14 stig á 23 mínútum.

Nýliðinn Gordon Hayward skoraði 34 stig þegar Utah Jazz vann 107-103 sigur á Denver Nuggets. Wilson Chandler skoraði mest fyrir Denver eða 27 stig.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:
Kobe Bryant.Mynd/AP
Boston Celtics-New York Knicks 112-102

Charlotte Bobcats-Atlanta Hawks 96-85

Cleveland Cavaliers-Washington Wizards 100-93

Orlando Magic-Indiana Pacers 92-74

Philadelphia 76ers-Detroit Pistons 100-104

Toronto Raptors-Miami Heat 79-97

Chicago Bulls-New Jersey Nets 97-92

Dallas Mavericks-New Orleans Hornets 121-89

Minnesota Timberwolves-Houston Rockets 102-121

Oklahoma City Thunder-Milwaukee Bucks 106-110 (framlengt)

Utah Jazz-Denver Nuggets 107-103

Golden State Warriors-Portland Trail Blazers 110-86

Los Angeles Clippers-Memphis Grizzlies 110-103

Phoenix Suns-San Antonio Spurs 106-103

Sacramento Kings-Los Angeles Lakers 108-116 (framlengt)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×