Körfubolti

Gunnar Einarsson: Sagan er bara að endurtaka sig frá 2008

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson. Mynd/Daníel
Gunnar Einarsson var einn af fimm Keflvíkingum sem skoruðu tólf stig eða meira þegar Keflvík vann 104-103 sigur á KR í framlengdum leik í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld. Keflvíkingar tryggðu sér þar með oddaleik í einvíginu í DHl-höllinni á fimmtudaginn.

„Við erum búnir að koma klárir í síðustu tvo leiki. Við höfum verið vel undirbúnir og tilbúnir til að berjast hverja einustu mínútu. Þó þeir komi með eitthvað áhlaup á okkur þá komum við alltaf til baka og látum það ekkert á okkur fá," sagði Gunnar sem skoraði 12 stig, tók 7 fráköst og hitti úr 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum.

„Við vitum það að við getum komið til baka og náð líka okkar sprettum alveg eins og þeir. Þetta er bara gott mál," sagði Gunnar en hvað hefur breyst frá því í fyrstu tveimur leikjunum sem KR-liðið vann sannfærandi.

„Við vorum alls ekki klárir í slaginn í fyrstu tveimur leikjunum og misstum einbeitingu þegar líða tók á leikina. Það er það sem við erum ekki að gera í dag. Við einbeitum okkur núna af því að berjast og halda einbeitingunni út leikinn og þá kemur þetta hjá okkur," sagði Gunnar sem var líka í stóru hlutverki þegar Keflavík vann 3-2 sigur á ÍR fyrir þremur árum eftir að hafa lent 0-2 undir.

„Nú er sagan bara að endurtaka sig frá því 2008. Við erum búnir að vinna tvo leiki í röð og þeir eru búnir að tapa tveimur leikjum í röð. Við erum á uppleið," sagði Gunnar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×