Fótbolti

Redknapp: Allt fór úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp og Jose Mourinho.
Harry Redknapp og Jose Mourinho. Mynd/AP
Tottenham-menn eru í vondum málum í Meistaradeildinni eftir 4-0 tap á móti Real Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Tottenham þurfti að spila manni færri í 75 mínútur í leiknum.

„Það fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis," sagði Harry Redknapp , stjóri Tottenham, eftir leikinn en Tottenham lenti undir eftir fjórar mínútur og missti síðan Peter Crouch af velli með tvö gul spjöld á 15. mínútu.

„Um leið og við vorum að yfirgefa búningsklefann þá sagði Aaron Lennon að hann hefði enga orku eða kraft. Síðan skora þeir snemma og við fáum síðan rauða spjaldið," sagði Redknapp en Lennon var með hálsbólgu.

„Við gerðum samt vel í fyrri hálfleiknum og fengnum nokkur færi. Ég hélt kannski að við gætum hangið í þeim en leikmennirnir höfðu ekki lengur kraft í lokin. Það er erfitt að koma hingað með ellefu menn hvað þá að spila tíu á móti þeim. Þetta var erfiður dagur á móti topp-, toppliði," sagði Redknapp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×