Ljós reynslunnar Þorvaldur Gylfason skrifar 31. mars 2011 06:15 Það var á fundi um stjórnskipunarmál í Háskólanum á Bifröst um daginn, að gestgjafi minn, Jón Ólafsson prófessor, lagði fyrir mig þessa lokaspurningu: Þarf stjórnarskráin að taka mið af hugmyndum manna um þjóðareðli? Ég hafði gefið honum tilefni til að spyrja, því að ég hafði í fyrirlestri mínum sagt eitthvað á þá leið, að stjórnvöld, sem leyfðu gengi íslenzku krónunnar að falla um 99,95 prósent gagnvart dönsku krónunni frá 1939, þegar báðar myntir voru jafngildar, virtust eiga við einhvers konar agavandamál að stríða. Ég hafði bætt því við, að Íslendingar gefa börnunum sínum þrisvar sinnum meira rítalín en Danir samkvæmt lyfjaskýrslum. Ekki skrifa yfirvöldin út allt þetta rítalín, nei, það gera læknar. Vandinn er því ekki bundinn við stjórnvöld. Fyrir nokkrum árum sagði einn merkasti jarðvísindamaður landsins við mig á förnum vegi: Ég þykist vita, hvernig þér líður innan um alla vitfirringuna í efnahagslífinu. Í orkumálunum, sagði hann, æða menn einnig áfram og bora og bora eins og jörðin þurfi engan tíma til að jafna sig. Fram í rauðan dauðannMér hefur lengi verið ljóst, allar götur frá unglingsárum, að Ísland er vanþroska í stjórnmálalegu tilliti og líkist að því leyti ýmsum þróunarríkjum. Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) tekur undir þessa skoðun í skýrslu sinni (8. bindi, bls. 184). Frá mínum bæjardyrum séð stafar vandinn að nokkru leyti af rangri kjördæmaskipan, sem hefur hrjáð landið frá fyrstu tíð og Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann, varaði við. Misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hefur hlaðið undir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök, sem hegða sér eins og ríki í ríkinu. Hrunið ætti að færa mönnum heim sanninn um nauðsyn þess að reyna að rífa landið upp úr þessu gamla fari og aftra því, að Ísland læsist inni í skuldabasli og byrji að líkjast þróunarlöndum einnig í efnahagslegu tilliti. Á því er raunveruleg hætta, sem brýna nauðsyn ber til að bægja frá eins og Þráinn Eggertsson prófessor benti á í Morgunblaðinu strax eftir hrun. Til að bægja þessari hættu frá þarf gagngerar umbætur á ýmsum sviðum og einnig, virðist mér, nýja stjórnarskrá. Dönum dugir að sönnu óbreytt stjórnarskrá frá 1953, enda eiga þeir ekki við nein sérstök agavandamál að stríða. Íslendingum dugir ekki óbreytt stjórnarskrá, úr því að spillingin, sem ásamt öðru lagði íslenzkt efnahagslíf á hliðina 2008, gat þrifizt hér við gildandi stjórnskipan. Þessi blákalda staðreynd kallar auk annars á nýja stjórnarskrá eins og RNA lýsir eftir (8. bindi, bls. 184). Þeir, sem telja enga ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána nú, myndu trúlega flestir þræta fram í rauðan dauðann fyrir spillinguna. Órækir vitnisburðirSkýrsla RNA kortleggur hluta vandans. Hún birtir tölur um ofurlán gömlu bankanna til tíu alþingismanna, þar á meðal til formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins (2. bindi, bls. 200). Ofan á fjallháa styrki bankanna og tengdra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna 2004-2008, sem Ríkisendurskoðun gerði grein fyrir síðla árs 2009 og ég lýsti hér í Fréttablaðinu 14. janúar 2010, bættu bankarnir ríflegum greiðslum til einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka, samtals 147 milljónum króna 2004-2008, og eru þó engin gögn til um greiðslur Glitnis til stjórnmálamanna né heldur tæmandi gögn um fyrirgreiðslu bankanna við stjórnmálamenn og samtök þeirra í fríðu (boðsferðir, risna o.fl.). Allt þetta stendur skýrum stöfum í skýrslu RNA (8. bindi, bls. 164-9). Í heilbrigðu réttarríki myndu ríkissaksóknari eða sérstakur saksóknari láta á það reyna fyrir dómstólum, hvort greiðslurnar voru mútur í skilningi hegningarlaga, en ekki bólar enn á slíkri viðleitni af hálfu ákæruvaldsins. Afhjúpanir RNA knýja á um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ný stjórnarskrá er nauðsynleg, en hún er samt ekki nóg. Stjórnvöld verða að virða stjórnarskrána. Að rata rétta leiðSpillingin, sem ásamt öðru lagði Ísland á hliðina, liggur að minni hyggju ekki í eðli íslenzku þjóðarinnar. Spillingin, siðaveiklunin, býr í fúnum samfélagsinnviðum, sem hægt er að skipta út. Hér er að ýmsu að hyggja, þar á meðal undirstöðum stjórnskipunarinnar. Stjórnarskrá Suður-Afríku er langorð um mannréttindi, þar eð þau voru fótum troðin á tíma aðskilnaðarstefnunnar. Stjórnarskrá Japans leggur blátt bann við hervæðingu, þar eð Japanar gerðu sig seka um stríðsglæpi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þannig getum við fært okkur land úr landi. Við vitum vel, að mannréttindabrot og stríðsglæpir liggja ekki í eðli Suður-Afríkubúa og Japana. Tildrög hörmunganna spruttu af skemmdum innviðum. Þess vegna telja þessar þjóðir rétt að binda skýr ákvæði um mannréttindi og frið í stjórnarskrár sínar. Spilling, sem hefur með öðru lagt efnahag fullvalda ríkis í rúst, kallar með líku lagi á traustar girðingar. Stjórnarskrá þjóðar þarf að spegla liðna tíð, svo að fólkið geti ratað rétta leið til farsældar í ljósi reynslunnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Það var á fundi um stjórnskipunarmál í Háskólanum á Bifröst um daginn, að gestgjafi minn, Jón Ólafsson prófessor, lagði fyrir mig þessa lokaspurningu: Þarf stjórnarskráin að taka mið af hugmyndum manna um þjóðareðli? Ég hafði gefið honum tilefni til að spyrja, því að ég hafði í fyrirlestri mínum sagt eitthvað á þá leið, að stjórnvöld, sem leyfðu gengi íslenzku krónunnar að falla um 99,95 prósent gagnvart dönsku krónunni frá 1939, þegar báðar myntir voru jafngildar, virtust eiga við einhvers konar agavandamál að stríða. Ég hafði bætt því við, að Íslendingar gefa börnunum sínum þrisvar sinnum meira rítalín en Danir samkvæmt lyfjaskýrslum. Ekki skrifa yfirvöldin út allt þetta rítalín, nei, það gera læknar. Vandinn er því ekki bundinn við stjórnvöld. Fyrir nokkrum árum sagði einn merkasti jarðvísindamaður landsins við mig á förnum vegi: Ég þykist vita, hvernig þér líður innan um alla vitfirringuna í efnahagslífinu. Í orkumálunum, sagði hann, æða menn einnig áfram og bora og bora eins og jörðin þurfi engan tíma til að jafna sig. Fram í rauðan dauðannMér hefur lengi verið ljóst, allar götur frá unglingsárum, að Ísland er vanþroska í stjórnmálalegu tilliti og líkist að því leyti ýmsum þróunarríkjum. Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) tekur undir þessa skoðun í skýrslu sinni (8. bindi, bls. 184). Frá mínum bæjardyrum séð stafar vandinn að nokkru leyti af rangri kjördæmaskipan, sem hefur hrjáð landið frá fyrstu tíð og Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann, varaði við. Misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hefur hlaðið undir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök, sem hegða sér eins og ríki í ríkinu. Hrunið ætti að færa mönnum heim sanninn um nauðsyn þess að reyna að rífa landið upp úr þessu gamla fari og aftra því, að Ísland læsist inni í skuldabasli og byrji að líkjast þróunarlöndum einnig í efnahagslegu tilliti. Á því er raunveruleg hætta, sem brýna nauðsyn ber til að bægja frá eins og Þráinn Eggertsson prófessor benti á í Morgunblaðinu strax eftir hrun. Til að bægja þessari hættu frá þarf gagngerar umbætur á ýmsum sviðum og einnig, virðist mér, nýja stjórnarskrá. Dönum dugir að sönnu óbreytt stjórnarskrá frá 1953, enda eiga þeir ekki við nein sérstök agavandamál að stríða. Íslendingum dugir ekki óbreytt stjórnarskrá, úr því að spillingin, sem ásamt öðru lagði íslenzkt efnahagslíf á hliðina 2008, gat þrifizt hér við gildandi stjórnskipan. Þessi blákalda staðreynd kallar auk annars á nýja stjórnarskrá eins og RNA lýsir eftir (8. bindi, bls. 184). Þeir, sem telja enga ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána nú, myndu trúlega flestir þræta fram í rauðan dauðann fyrir spillinguna. Órækir vitnisburðirSkýrsla RNA kortleggur hluta vandans. Hún birtir tölur um ofurlán gömlu bankanna til tíu alþingismanna, þar á meðal til formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins (2. bindi, bls. 200). Ofan á fjallháa styrki bankanna og tengdra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna 2004-2008, sem Ríkisendurskoðun gerði grein fyrir síðla árs 2009 og ég lýsti hér í Fréttablaðinu 14. janúar 2010, bættu bankarnir ríflegum greiðslum til einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka, samtals 147 milljónum króna 2004-2008, og eru þó engin gögn til um greiðslur Glitnis til stjórnmálamanna né heldur tæmandi gögn um fyrirgreiðslu bankanna við stjórnmálamenn og samtök þeirra í fríðu (boðsferðir, risna o.fl.). Allt þetta stendur skýrum stöfum í skýrslu RNA (8. bindi, bls. 164-9). Í heilbrigðu réttarríki myndu ríkissaksóknari eða sérstakur saksóknari láta á það reyna fyrir dómstólum, hvort greiðslurnar voru mútur í skilningi hegningarlaga, en ekki bólar enn á slíkri viðleitni af hálfu ákæruvaldsins. Afhjúpanir RNA knýja á um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ný stjórnarskrá er nauðsynleg, en hún er samt ekki nóg. Stjórnvöld verða að virða stjórnarskrána. Að rata rétta leiðSpillingin, sem ásamt öðru lagði Ísland á hliðina, liggur að minni hyggju ekki í eðli íslenzku þjóðarinnar. Spillingin, siðaveiklunin, býr í fúnum samfélagsinnviðum, sem hægt er að skipta út. Hér er að ýmsu að hyggja, þar á meðal undirstöðum stjórnskipunarinnar. Stjórnarskrá Suður-Afríku er langorð um mannréttindi, þar eð þau voru fótum troðin á tíma aðskilnaðarstefnunnar. Stjórnarskrá Japans leggur blátt bann við hervæðingu, þar eð Japanar gerðu sig seka um stríðsglæpi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þannig getum við fært okkur land úr landi. Við vitum vel, að mannréttindabrot og stríðsglæpir liggja ekki í eðli Suður-Afríkubúa og Japana. Tildrög hörmunganna spruttu af skemmdum innviðum. Þess vegna telja þessar þjóðir rétt að binda skýr ákvæði um mannréttindi og frið í stjórnarskrár sínar. Spilling, sem hefur með öðru lagt efnahag fullvalda ríkis í rúst, kallar með líku lagi á traustar girðingar. Stjórnarskrá þjóðar þarf að spegla liðna tíð, svo að fólkið geti ratað rétta leið til farsældar í ljósi reynslunnar.