Körfubolti

Friðrik: Töpuðum fyrir miklu betra liði

Stefán Árni Pálsson í Njarðvík skrifar
Friðrik Ragnarsson.
Friðrik Ragnarsson.
„Við töpuðum bara fyrir mun betra liði í kvöld,“ sagði Friðrik Ragnarsson, annar þjálfari Njarðvíkinga, eftir tapið í kvöld. Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí eftir að hafa tapað einvíginu gegn KR 2-0 í 8-liða úrslitum Iceland Express-deild karla. Leikurinn í kvöld fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík en honum lauk með 80-96 sigri gestanna.

„Ef við hefðum tapað í hörku spennandi leik í kvöld þá væri ég hugsanlega meira svekktur en svo var ekki og við áttum í raun ekkert í þá,“ sagði Friðrik.

„KR er hreinlega bara með betra lið en við í dag og því var þetta fyllilega sanngjarnt. Leikurinn spilaðist ekki eins og við höfðum lagt upp með en markmiðið var að halda þessu í lágu stigaskori en við áttum bara fá svör við sóknarleik KR,“ sagði Friðrik.

„Það verður að segjast alveg eins og er að við hefðum þurft lengri tíma til að ná upp meiri liðsheild.“

Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Ragnarsson tóku við liðinu á miðju tímabili og hafa í raun náð ágætum árangri með Njarðvík eftir skelfilega byrjun.

„Ég veit ekki hvort við munum halda áfram með liðið, það á bara alveg eftir að ræða þau mál,“ sagði Friðrik Ragnarsson, eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×