Körfubolti

Hrafn: Bekkurinn er að koma frábær inn

Stefán Árni Pálsson í Njarðvík skrifar
Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson.
„Þetta var bara hörkuleikur sem við þurftum að hafa mikið fyrir,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, eftir sigurinn í kvöld. KR-ingar eru komnir í undanúrslit Iceland Express-deild karla eftir að hafa sópað Njarðvíkingum í sumarfrí. Leikurinn í kvöld fór 80-96 fyrir KR-inga og sigurinn í raun aldrei í hættu.

„Liðið sýnir algjörlega styrk sinn hér í kvöld. Það fer oft framhjá fólki hvað bekkurinn er að skila ofboðslega góðri vinnu inn í liðið okkar. Njarðvíkingar eyddu mikilli orku í að halda í við okkur í fyrri hálfleik en síðan vorum við bara ferskari í þeim síðari og þá var þetta aldrei spurning,“ sagði Hrafn.

„Varnarleikur okkar í þriðja leikhlutanum var hreint stórkostlegur og að halda Njarðvíkingunum aðeins í níu stigum í öllum fjórðungnum er þolanleg vörn,“ sagði Hrafn.

„Njarðvíkurliðið er frábært lið en ég held að það sé bara meira en að segja það að búa til gott lið. Þegar maður er komin í úrslitakeppni þar sem spennustigið er hátt þá er miklu betra að vera með menn saman í liði sem hafa gert allt þúsund sinum áður saman,“ sagði Hrafn.

„Við tökum bara frí á morgun og meltu þetta aðeins en síðan hefst bara undirbúningur fyrir undanúrslitin. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við séum að fara mæta Keflavík. Þetta er löng leið og verður virkilega krefjandi verkefni,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×