Körfubolti

Ræðst ekki fyrr en í upphitun hvort Sean spili í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Burton.
Sean Burton. Mynd/Valli
Það er ekki enn vitað hversu mikinn þátt bandaríski bakvörðurinn Sean Burton getur tekið í öðrum leik Snæfells og Hauka í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta en liðin mætast á Ásvöllum klukkan 19.15 í kvöld.

Burton meiddist á ökkla í fyrsta leikhluta í fyrsta leiknum sem Snæfell vann 76-67. Hann kom ekkert meira við sögu í þeim leik en Snæfellsliðið náði að vinna upp tólf stiga forskot Hauka og tryggja sér sigurinn.

„Hann er tæpur fyrir leikinn. Hann verður í búning en við metum það á Ásvöllum hversu mikið hann spilar. Hann er búinn að vera í meðferð. Við munum sjá hvernig ökklinn hans verður í upphituninni," segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells þegar Vísir heyrði í honum í dag.

„Þetta lítur betur út en maður átti von á. Ég kom honum til eins snillings sem hjálpaði okkur töluvert og ég vona að það sé nóg. Við vitum það samt ekki fyrr en hann hitar upp," sagði Ingi en þetta er annað árið í röð sem Sean meiðist illa í úrslitakeppninni.

„Þetta er þungt á sálina hjá honum en þetta eru öðruvísi meiðsli en í fyrra. Þetta er ekki líkt meiðslunum þá því þá reif hann vöðva í fæti. Núna er þetta ökklasnúningur þó að hann hafi verið nokkuð svæsinn," sagði Ingi Þór.

Snæfell getur komist í undanúrslitin með sigri í leiknum á Ásvöllum í kvöld.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að klára þetta í kvöld til þess að hann fái tíma til þess hvíla sig," sagði Ingi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×