Skoðun

Raunvextir í fjötrum

Már Wolfgang Mixa skrifar
Stýrivextir hafa lækkað ört síðustu mánuði og eru þeir nú í sögulegu lágmarki. Þessar fréttir skipta þó meginhluta þjóðarinnar litlu máli, sem skuldar aðallega verðtryggð húsnæðislán. Fastir raunvextir slíkra lána hafa staðið í stað og breytilegir vextir hafa ekki fylgt vaxtaþróun íbúðabréfa undanfarna mánuði. Til dæmis hefur almennt vaxtaálag breytilegra lífeyrissjóðalána LSR verið í kringum 0,5% hærra en meðalávöxtunarkrafa íbúðabréfa. Í dag er sú krafa um 3% og því ættu breytilegir raunvextir LSR að vera í kringum 3,5%. Þeir eru hins vegar 4% í dag og samkvæmt heimasíðu sjóðsins fara þeir ekki neðar. Fyrir fjölskyldu sem skuldar 20 milljónir munar þetta um 100 þúsund krónur í árlegan vaxtakostnað. Hví lækka raunvextir húsnæðislána ekki í takti við markaðsaðstæður?

Samkvæmt lögum um ávöxtun lífeyrissjóða skal árleg raunávöxtun þeirra ekki vera minni en 3,5%. Þetta var e.t.v. raunhæft sjónarmið á sínum tíma þegar íslensk skuldabréf báru miklu hærri ávöxtunarkröfu. Í dag eru þessi lög hins vegar úr takti við raunveruleikann, bæði nú og til lengri tíma. Þar sem lífeyrissjóðir eru skyldugir til að ávaxta fjármuni sína samkvæmt þessum lögum þá er ekki hægt að ætlast til þess af þeim að þeir láni sjóðsfélögum sínum í takti við markaðsaðstæður. Þess í stað neyðast þeir til að halda raunvaxtastigi uppi. Lækkun raunvaxta er því í fjötrum lagaákvæða.

Því hlýtur það að vera hlutverk löggjafans að breyta þessum lögum hið fyrsta svo að þau séu í takti við aðstæður, t.d. að samræma þau við ávöxtunarkröfur sem ríkja á hverjum tíma, og losi lækkun raunvaxta úr fjötrum. Líklegt er að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækki enn frekar með auknum sveigjanleika í lögum varðandi ávöxtun lífeyrissjóða. Það myndi draga úr vaxtakostnaði íslenskra heimila sem og fyrirtækja og gera mörg fjárfestingartækifæri að raunhæfari kostum. Afnám hafta á lækkun raunvaxta væri því eins og vítamínsprauta í uppbyggingu íslensks samfélags og atvinnulífs.

 




Skoðun

Sjá meira


×